480-2900
Prenta síðu

Slysa og skaðabætur

Hvað eru skaðabætur ?

Í hvert skipti sem einstaklingur verður fyrir líkamstjóni getur stofnast réttur til skaðabóta. Skaðabætur eru bætur sem tjónþoli fær frá þeim sem veldur honum líkamstjóni af ásetningi eða gáleysi, eða á grundvelli hlutdrægna bótareglna. Tjónþolinn á að vera jafn vel settur eftir slys eins og hann væri ef hann hefði ekki orðið fyrir slysi.

Hvað eru slysabætur ?

Slysabætur fást úr Slysatryggingum sem tjónþoli hefur keypt sér áður en slys á sér stað. Tjónþola eru greiddar bætur eftir áður gerðum samningi þar sem búið er að ákveða fjárhæð bóta og bótatíma.

Fyrnist réttur til bóta ?

Bótaréttur getur fyrnst á fjórum árum eftir slys og í síðasta lagi tíu árum eftir slysdag. Umferðaslys geta fyrnst á fjórum árum. Rétt er því að leita sér faglegrar aðstoðar í tíma svo slíkt hendi ekki.

Bótaþættir

Bótaþættir geta verið mismunandi eftir því hvers konar slys er um að ræða.

Umferðarslys: Sá sem slasast í umferðaslysi getur átt rétt til þjáningabóta, örorkubóta og miskabóta. Það er útbreiddur misskilningur að fólk eigi ekki rétt á bótum sé það í órétti. Uppgjör fer fram samkvæmt skaðabótalögum. Þjáningabætur miðast við þann tíma sem hinn slasaði telst vera veikur vegna slyssins. Miskabætur miða við skerðingu á lífsgæðum hins slasaða. Varanleg örorka eru bætur fyrir framtíðartekjutap og reiknast út frá aldri tjónþolans og tekjum sl. þrjú ár fyrir slysið. Tjónþoli getur einnig átt rétt til greiðslu tekjutaps komi til þess. Þá er greiddur útlagður kostnaður vegna læknismeðferðar, lyfja og sjúkraþjálfunar.

Vinnuslys: Allir launamenn skulu vera tryggðir slysatryggingu launþega sem er vátrygging sem atvinnurekendum er skylt að hafa samkvæmt kjarasamningi. Bótafjárhæðir eru staðlaðar. Tjónþoli getur einnig átt rétt til bóta hjá Tryggingastofnun ríkissins. Ef hægt er að rekja slysið til sakar vinnuveitanda hins slasaða getur komið til greiðslu samskonar bóta og vegna umferðarslysa, þ.e. samkvæmt skaðabótalögum.

Frítímaslys: Heimilistryggingar margar hverjar innihalda slysatryggingu. Einnig getur verið bótaréttur úr sérstökum slysatryggingum sem keyptar hafa verið og eru þessar bætur þá í samræmi við skilmála þessara trygginga.

Upphafsaðgerðir

Mikilvægt er að leita læknis strax eftir að slys hefur orðið. Til að byrja með þarf tjónþolinn einungis að koma við á skrifstofu lögmanns og gefa skriflegt umboð. Lögmaðurinn mun þá útvega öll skjöl frá lögreglu, læknum og tryggingafélögum.

Örorkumat

Þegar heilsufar tjónþolans er orðið stöðugt og enginn bati væntanlegur lengur (svokallaður stöðugleikapunktur), en a.m.k. að ári liðnu frá slysinu, er líkamstjónið metið af einum eða tveimur matsmönnum. Matsmenn skila frá sér örorkumati þar sem fram kemur hversu mikið tjónið er.

Greiðsla skaðabóta

Uppgjör er reiknað út frá fyrirliggjandi örorkumati.  Bætur eru að jafnaði ekki greiddar fyrr en örorkumatið er komið, í einstaka tilfellum er þó hægt að krefjast innáborgunar. Útlagður kostnaður vegna lækna, sjúkraþjálfunar eða lyfja fæst greiddur strax þó mat liggi ekki fyrir.

Lögmannskostnaður

Lögmannskostnaður vegna umferðarslysa er að mestu leiti greiddur af tryggingafélagi. Lögmannskostnaður vegna slysa sem bætast úr sérstökum tryggingum s.s. heimilistrygginu og slysatryggingu greiðist af tjónþolanum sjálfum.

Skrifstofa Lögmanna Suðurlandi er opin alla virka daga frá kl. 9-12 og frá 13-17

Sími 480-2900

Verið velkomin

Upplýsingar um fyrirtækið